Wednesday, November 26, 2014

Steiktur fiskur

Þá er komið að steikta fisknum. Uppskriftina að honum finnið þið í bókinni Við matreiðum á blaðsíðu 91. Með fisknum er svo steiktur laukur.


Við keyptum ýsuflök til að nota í þessa uppskrift og byrjuðum á því að hreins og þerra fiskinn svo hann yrði ekki of blautur. Við skárum hvert flak í um 3 sneiðar og veltum þeim upp úr hveitiblöndu sem innihélt hveiti, salt og pipar. Næst steiktum við fiskinn upp úr smjörlíki á heitri pönnu. Við slöktum svo undir pönnunni og héldum fisknum heitum á meðan að við gerðum laukinn.

Við skárum lauk í mjög þunnar sneiðar og brúnuðum hann upp úr smjörlíki. Við létum svo laukinn ofan á fiskinn áður en hann var borinn fram.


Meðlætið okkar var ofureinfalt. Við suðum kartöflur til að hafa með og gerðum heimatilbúna kokteilsósu úr sýrðum rjóna og tómatsósu. Mér finnst alltaf svo gott að hafa kokteilsósu með steiktum fisk.

Þessi diskur stóðst væntingar mínar að því leiti að steiktur fiskur er alltaf steiktur fiskur, voðalega lítill bragðmunur þar á eftir uppskriftum. En hinsvegar þá kom laukurinn mér á óvart þar sem ég er ekki mikil lauk manneskja en hann var mjög góður með fisknum.

Allt í allt fínn matur og rosalega fljótlegt og auðvelt að elda sem skýrir kannski afhverju það gekk svona vel hjá okkur :)

Njótið!
Rannveig

Spergilkálssúpa

Æj hvar skal byrja. Ég verð að segja að ég var nú ekki með neinar væntingar fyrir þess súpu aðrar en þær að ég vissi að mér myndi ekki finnst hún góð. Að því leitinu til stóðst hún mínar væntingar því að þessi súpa er ekki fyrir minn smekk. Uppskriftin er úr bókinni Eldað í dagsins önn og hana má finna á blaðsíðu 85.


Við byrjuðum á því að flysja laukinn og kartöflurnar og skárum það svo í litla bita. Bitarnir eru litlir því þá er auðveldar að mauka þá síðar í ferlinu. Næst hreinsuðum við spergilkálið undir köldu vatni og skárum niður um 200 grömm af því.


Næst suðum við um 7 dl af vatni og þegar að suðan var komin upp bættum við öllu grænmetinu út í ásamt kjötkraftsteningi. Þegar að grænmetið var búið að sjóða í 15 mínútur maukuðum við það með töfrasprota þar til að súpan var orðin mjúk og kekkjalaus. Næst settum við rjómaostinn og léttmjólkina saman við og hrærðum þar til osturinn var bráðnaður. Síðan krydduððum við með þurkaðri basilíku.


Með súpunni bar ég fram sólkjarnabrauð sem við höfðum bakað fyrir verkmöppu 1.

Það gekk í sjálfu sér mjög vel að matreiða súpuna og ég get ekki bent á neitt sem fór illa, nema kannski bragðið á súpunni (og já Maggi tók óvart vitlausan kryddstauk svo að það fór smá kúmen ofan í hana). En eins og ég segi, ekki súpa fyrir minn smekk þannig að ég og Maggi enduðum á því að fara á KFC þetta kvöld :)

"Njótið!"
Rannveig

Steiktar fiskibollur

Þá er komið að steiktu fiskibollunum úr bókinni Eldað í dagsins önn. Þessa uppskrift finnið þið á blaðsíðu 40 í bókinni.


Að búa til þessar bollur var ekki erfitt og mér finnst alveg fáránlegt hvað heimatilbúnar fiskibollur eru miklu betri en þær sem maður kaupir tilbúnar út í búð. 


Í þessar bollur notuðum við ýsu. Við byrjuðum á því að mauka fiskinn í matvinnsluvél. Það verður samt að passa að mauka hann ekki of mikið, þetta á ekki að verða fiskihakk. Það er líka hægt að tæta fiskinn með skeið ef þið viljið það frekar. Næst hrærði ég fiskinn með handþeytara og bætti við hann salti og pipar. Við ákváðum að sleppa lauknum þar sem við erum ekki miklar laukmanneskjur ég og Maggi. Næst bættum við kartöflumjölinu og hveitinu út í og hrærðum því sman við. Næst tókum við eitt egg sem við vorum búin að slá í sundur og bættum því saman við fiskinn. Það síðasta sem við þurftum að setja við bollurnar var mjólk. Við hrærðum henni smám saman við blönduna. Næst brúnuðum  við bollurnar á pönnu með smjöri (við svindluðum smá því að allt er betra ef það er steikt upp úr smjöri :) ). Síðan komum við bollunum fyrir á eldföstu móti og kláruðum að elda þær inni í ofni.


Ástæðan fyrir því að við kláruðum bollurnar inni í ofni en suðum þær ekki var einfaldlega sú að okkur leist ekkert á þessa sósu og við vildum fá stökka húð utan um bollurnar. Í staðn fyrir sósuna ákváðum við að útbúa heimatilbúna Karrýsósu. Uppskriftina fengum við af bloggsíðunni eldhussogur.com og má sjá hana hér: http://eldhussogur.com/2012/10/09/fiskibollur-med-karrisosu/ (við notuðum að sjálfsögðu bara sósuuppskrftina en ekki fiskibolluuppskriftina)


Sem meðlæti með bollunum og sósunni suðum við hrísgrjón því það er ekkert betra en hrísgrjón og góð karrýsósa. Nammi namm :) 


Það gekk rosalega vel að elda þessa uppskrift þó að ég hélt á tímabili að fiskibollublandan var alltof þunn eftir að búið var að bæta við mjólkinni og stóst uppskriftin að bollunum allar mínar væntingar.

Njótið!
Rannveig

Möffins og Smjörkökur

Þar sem að ég og Magnús misstum af tveimur tímum þurftum við að baka heima hjá okkur. Ég tók að mér að baka Möffins og Smjörkökur en Maggi bakaði Skúffuköku og Sjónvarpsköku. Hér fyrir neðan sjáið þið myndir af því sem ég gerði.


 Þær brunni pínulítið hjá mér svo ég tók bara myndir af þeim bestu :)



Hér eru svo smjörkökurnar, sjúklega auðvelt að gera þær og svo eru þær líka rosalega góðar. Ég myndi pottþétt baka þær aftur.



Steiktar kótelettur og brúnaðar kartöflur

Þá er komið að kótelettunum. Við ákváðum að gera kótelettur í raspi því að þær eru bara einfaldlega betri. Sem meðlæti ákváðum við að hafa brúnaðar kartöflur ásamt fleiru sem ég tala um seinna. Uppskriftina að kótelettunum og brúnuðukartöflunum má finan í bókinni Við matreiðum á blaðsíðum 118 og 155.


Við keyptum frosnar kótelettur til að nota í réttinn og þurftum því að þerra kjötið vel með pappír áður en það var steikt. Í poka settum við salt, pipar, papríkuduft og töfrakridd, ásamt raspi. Þessu blönduðum við vel saman. Kótelettunum var svo komið fyrir í pokann með rapsblöndunni og hrist vel svo þær yrðu vel huldar raspi.


Við komum svo kótelettunum fyrir í eldfast form, settum smjörklípur hér og þar og settum inn í ofn. Við ákváðum að elda þær svona svo það yrði ekki of mikil bræla og kóteletturnar of fitugar.


Þegar við gerðum brúnuðu kartöflurnar suðum við um hálft kíló af óflysjuðum kartöflum. Þegar þær voru orðnar meyrar flysjuðum við þær og skoluðum úr köldu vatni. Við geymdum kartöflurnar til hliðar og útbjuggum karmelluna með því að bræða smjörlíki og sykur saman á pönnu. Þegar að karmellan var tilbúin bættum við kartöflunum útí og veltum þeim upp úr karmellunni þar til þær voru orðnar gullinbrúnar.


Sem meðlæti útbjuggum við lauksmjör sem inniheldur bara saxaðan lauk og smjör,


grænar baunir frá Ora.


Og svo sultu fyrir þá sem vilja :)

Þetta fannst mér rosalega gott á bragðið og stóðst allar mínar væntingar, sérstaklega þar sem auðvelt var að elda þetta og ekkert fór illa við matreiðsluna.

Njótið!
Rannveig


Íslensk kjötsúpa

Þetta var í fyrsta skipti sem ég eldaði íslenska kjötsúpu og mér fannst það heppnast alveg ágætlega. Uppskriftin sem ég og Maggi notuðum er í bókinni Eldað í dagsins önn og má finna hana á blaðsíðu 9.


Við byrjuðum á því að hreinsa kjötið en skildum þó eftir einhverja fitu á kjötinu því að hún gefur svo gott bragð. Næst suðum við 12 dl af vatni og þegar að suðan var komin upp settum við kjötið út í pottinn ásamt nautakraftstening. Nú þarf að lækka hitann niður á lægstu stillingu en passa að suðan detti ekki niður.


Þegar að froða var farin að myndast í pottinum veiddum við hana upp úr og helltum í vaskinn. Næst settum við í súpuna súpujurtirnar og salt og sjóðum í klukkutíma.


Næst undirbjuggum við allt grænmetið, flysjuðum kartöfluna, rófuna, gulræturnar og skárum það ásamt hvítkálinu og blaðlauknum. Þetta settum við síðan ofan í pottinn og leyfðum að sjóða með kjötinu. Þá er komið að því að þykkja súpuna með því að hella út í blöndu af súpudufti og vatni sem búið er að hrista vel. Þá er súpan látin sjóða í 15 mínútur í viðbót.


Og þá er súpan tilbúin. Í uppskriftinni stendur að súpan sé fullkomin máltíð ein og sér svo að við Maggi létum það bara standa og bárum ekki neitt nema fram með súpunni nema vatn :) 

Það tókst mjög vel að gera súpuna og það var í rauninni munn auðveldara heldur en ég bjóst við þannig að þessi uppskrift fór fram úr mínum væntingum.

Njótið!
Rannveig

Smásteik(gúllas) með hærðum kartöflum

Þá er komið að fyrstu uppskriftinni fyrir verkmöppu 2! Ég og Magnús ákváðum að byrja þessa eldunartíð með gúllasi og hrærðum kartöflum úr bók ,,Við matreiðum". Gúllasið finnið þið á blaðsíðu 122 en hrærðu kartöflunar finnið þið á blaðsíðu 155.

Í gúllasið keyptum við nautakjötgúllas sem búið var að skera og snyrta fyrir okkur. Við byrjuðum á því að þerra kjötið með pappír svo það yrði ekki of blautt þegar við byrjuðum að steikja það.

Næst skárum við laukinn smátt en við slepptum að hafa gulrætur. Þegar því var lokið tókum við plastpoka og settum í hann hveiti, salt og pipar. Síðan settum við kjötið í pokann og hristum vel þannig að kjötið yrði allt hulið hveitiblöndunni.

Næst steiktum við kjötið upp úr matarolíu. Þegar kjötið var orðið brúnað bættum við lauknum við ásamt lárviðarlaufi, merían og kjötsoði sem við höfðum útbúið úr vatni og kjötkraftsteningi.

Þetta suðum við þar til kjötið var orðið meirt, í tæplega klukkutíma.


Næst útbjuggum við kartöflurnar með því að sjóða hálft kíló af flysjuðum kartöflum. Þegar að þær voru orðnar meirar tókum við frá 1 dl af katöflusoðinu. Næst settum við kartöflurnar í skál fyrir Kitchanaid vélina og er þetta í fyrsta sinn sem ég hef nokkurntíman notað hærivél en ekki stappara til að búa til kartöflumús. Við hrærðum kartöflurnar og bættum út í soðið, mjólkina, salt, smá pipar og smá sykur. Þetta hrærðum við þar til allar kartöflurnar voru orðnar maukaðar og blandan orðin létt.


Það gekk vél að elda þetta allt saman en kjötið hefði mátt sjóða aðeins lengur svo það yrði meyrara. Annað þá fannst mér rosalega ógirnilegur litur á þessu svo ég setti nokkra dropa af sósulit út í svo gúllasið yrði girnilegra.


Þetta var rosalega bragðgott allt saman og fannst okkur Magga tilvalið að hafa snittubrauðið sem við bökuðum fyrir verkmöppu 1 með matnum! :)

Njótið!
Rannveig