Mér hefur alltaf fundist kjöt í karrí rosalega gott og því stóðst þetta allar mínar væntingar því þetta var mjög góð uppskrift. Uppskriftin er úr bókinni Eldað í dagsins önn á blaðsíðu 22.
Við byrjuðum á því að sjóða kjötið. Við hituðum þá vatnið að suðu og vorum búin að hreinsa kjötið áður en við bættum því út í sjóðandi vatnið.
Þegar froða var farin að myndast á pottinn veiddum við hana upp úr og bættum einni og hálfri teskeið við vatnið. Síðan suðum við kjötið þar til það var tilbúið, í sirka 40 mínútur. Þá settum við gulrætur og kartöflur í pottinn og suðum með kjötinu í 15 mínútur í viðbót.
Til að búa til karrísósuna notuðum við soðið af kjötinu, um 3 dl. Við undirbjuggum svo jafning með því að hrista saman léttmjók hveiti og karrí. Síðan helltum við jafningnum út í soðið og hrærðum vel í til að blanda vel saman meðan sósan sauð.
Okkur fannst þetta síðan alltof lítil sósa þannig að við þrefölduðum hana með því að taka meira af soðinu og bjuggum til meiri jafning. Á mínu heimili á allt að vera löðrandi í karrísósu þegar hún er í boði svo það var nauðsynlegt að búa til meiri sósu :)
Við suðum svo auka kartöflur í potti til hliðar sem við bárum fram með kjötinu.
Rosalega bragðgóður og klassískur réttur sem auðvelt er að elda.
Njótið!
Rannveig