Monday, December 8, 2014

Kjöt með karrísósu

Þá er komið að síðasta réttnum í þessum áfanga og er það ekkert annað en Kjöt í karrí! :)

Mér hefur alltaf fundist kjöt í karrí rosalega gott og því stóðst þetta allar mínar væntingar því þetta var mjög góð uppskrift. Uppskriftin er úr bókinni Eldað í dagsins önn á blaðsíðu 22.


Við byrjuðum á því að sjóða kjötið. Við hituðum þá vatnið að suðu og vorum búin að hreinsa kjötið áður en við bættum því út í sjóðandi vatnið.



Þegar froða var farin að myndast á pottinn veiddum við hana upp úr og bættum einni og hálfri teskeið við vatnið. Síðan suðum við kjötið þar til það var tilbúið, í sirka 40 mínútur. Þá settum við gulrætur og kartöflur í pottinn og suðum með kjötinu í 15 mínútur í viðbót.



Til að búa til karrísósuna notuðum við soðið af kjötinu, um 3 dl. Við undirbjuggum svo jafning með því að hrista saman léttmjók hveiti og karrí. Síðan helltum við jafningnum út í soðið og hrærðum vel í til að blanda vel saman meðan sósan sauð. 

Okkur fannst þetta síðan alltof lítil sósa þannig að við þrefölduðum hana með því að taka meira af soðinu og bjuggum til meiri jafning. Á mínu heimili á allt að vera löðrandi í karrísósu þegar hún er í boði svo það var nauðsynlegt að búa til meiri sósu :)

Við suðum svo auka kartöflur í potti til hliðar sem við bárum fram með kjötinu.



Rosalega bragðgóður og klassískur réttur sem auðvelt er að elda.

Njótið!
Rannveig

Töfrafiskur og Grænmetispottréttur

Hér ákváðum við að slá tvær flugur í einu höggu. Við elduðum töfrafiskinn og höfðum grænmetispottréttinn með sem meðlæti! Okkur fannst það voða sniðugt þar sem við hefðum hvort sem er borðað bara grænmetisrétt í kvöldmat. Við erum kjötætur! ;)

Uppskriftina að töfrafisknum fengum við úr bókinni Eldað í dagsins önn á blaðsíðu 48 en uppskriftin að grænmetispottréttinum er úr bókinni Við matreiðum á blaðsíðu 175.

Við skulum byrja á fisknum:

Mér fannst nafnið á réttinum ekki gefa neitt til kynna svo að ég var ekki með neinar væntingar, en viti menn hann var bara nokkuð góður. Ég myndi örugglega elda hann aftur.


Við byrjuðum á því að smyrja eldfast mót svo að eplin og fiskurinn myndu ekki festast við það. Næst flysjuðum við og skárum eplin, röðuðum þeim á eldfasta mótið, stráðum yfir þau karrí og glóðuðum þau inni í ofni í sirka 5 mínútur.

Við keyptum ýsuflök fyrir réttinn og meðan að eplin voru inni í ofni hreinsuðum við fiskinn og skárumm hann í meðalstóra bita. Svo settum við fiskinn yfir eplin, stráðum smá salti yfir og dreifðum smjörklípum á víð og dreif yfir fiskinn. Allt er betra með smá smjöri :)

Við glóðuðum fiskinn í svona sirka 7 mínútur áður en við stráðum rifnum osti yfir og settum aftur inn í ofn til að leyfa honum að bráðna í svona 2 mínútur.


Þegar fiskurinn var kominn úr ofninum stráðum við þurrkuðu dilli yfir til að skreyta.


En þá að grænmetisréttinum:

Það fyrsta sem við byrjuðum á að gera var að skera rauðlaukinn og hita hann ásamt kryddinu (kúmen, kóríander, túrmerik, kajennpipar, salt og svartur pipar) í pottinum. 


Næst skárum við gulrætur, kúrbít, papríku, kartöflur og sætar kartöflur í litla bita og bættum út í ásamt niðursoðnum tómötum (ásamt safanum sem var í dósinni) og grænmetissoði sem við bjuggum til úr vatni og grænmetiskrafti. Næst suðum við allt heila klabbið þar til að var orðið meyrt.

Í lokin bættum við út í tómatmauki og kjúklingabaunum og létum suðuna koma upp. Þegar að altt var aoðrið meyrt og fínt bárum við réttinn fram.


Grænmeti er ekki mitt uppháhald þannig að þessi réttur stóðst alveg mínar væntingar um að vera ekki fyrir mig. Það gekk samt vel að elda og undirbúa hann, enda ekki flókinn réttur. En ég verð að viðurkenna að ég plokkaði kjúklingabaunirnar úr og borðaði þær, mér fannst þær það besta við þennan rétt.

Njótið!
Rannveig

Saltkjöt og baunir

Túkall! Sorrý varð bara að skrifa þetta því þetta er búið að óma í hausnum á mér frá því ég byrjaði að elda þennan rétt :)

Uppskriftina að þessum rétt má finna í bókinni Eldað í dagsins önn á blaðsíðu 15. Ég hef aldrei smakkað baunasúpu áður svo ég var ekki með neinar væntingar en viti menn hún var bara mjög góð, frekar sölt, en góð!


Það fyrsta sem við gerðum var að undirbúa okkur og leggja gulu hálfbaunirnar í bleyti kvöldið áður en við elduðum réttinn. Þetta er gert til að mýkja baunirnar og stytta suðutímann þegar eldað er. Næsta dag þegar við elduðum réttinn byrjuðum við á því að setja 13 dl af vatni í pott og suðum baunirnar þar í 15 mínútur. Ef að froða myndast í pottinum skal fjarlægja hana og setja í vaskinn.

Næst skárum við salkjötið í frekar stóra bita og sumt bara ekki og bættum því í baunapottinn og suðum kjötið með baununum í 50 mínútur. Við bættum líka beikoninu við þá sem við höfðum skorið í ltila bita.


Næst skárum við grænmetið niður eftir að við hreinsuðum það og settum allt nema spergilkálið sem á ekki að bæta við í súpuna fyrr en í lokin. Alla súpuna suðum við nú í 15 mínútur og þegar að því var lokið bættum við spergilkálinu við og suðum í 5 mínútur til viðbótar.


Þar sem að súpan er svo matmikil bárum við ekkert fram með henni nema nóg af vatni þar sem hún var frekar sölt.

Eldamennskan gekk að öllu vel nema við hefðum kannski þurft að sjóða kjötið sér og bæta því svo út í súpuna svo hún yrði ekki jafn sölt. En mér finnst svo sem allur saltur matur góður svo saltbragðið fór ekki illa í mig :)

Njótið!
Rannveig